top of page

Námsferill og fræðistörf

Stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík 1958. Skráður í nám í Háskóla Íslands haustið 1958 í landafræði, ensku og uppeldis- og kennslufræði. Lauk prófi í forspjallsvísindum og ritaði lokaritgerð í landafræði 1961, Akuryrkja í hitabeltislöndum. Ritgerðin var byggð á skýrslum og greinargerðum frá FAO.

Leiðsögukennari minn var prófessor Sigurður Þórarinsson.

 

Undirritaður lauk prófum í uppeldis- og kennslufræðum. Aðalkennari minn og velgerðamaður var prófessor Matthías Jónasson. 

Ég sótti einnig tíma í latínu hjá dr. Jakobi Benediktssyni.

Fyrir tilstilli Matthíasar Jónassonar fékk ég þýskan styrk til framhaldsnáms í skólasögu i Erfurt í Þýskalandi sumarið 1971. Ég fékk styrk og rannsóknaraðstöðu í júlí og ágúst á bókasafni Pädagogische Hochschule Dr. Theodor Neubauer í Erfurt/Mülhausen. 

 

BA-próf í mannkynssögu 1963. Lokaritgerð mín í sögu, Rithöfundurinn Aldous Huxley, 107 bls. A4. Leiðsögukennari minn var prófessor Ólafur Hansson.

 

Fyrrihlutaprófsritgerð í íslenskum fræðum vorið 1964, Árferði á Íslandi á sautjándu öld frá heimspekideild H.Í., 119 bls. A4. Leiðsögukennari prófessor Þórhallur Vilmundarson. 

Lokaprófsritgerð fyrir cand. mag. próf í HÍ vorið 1965. Saga latínuskóla á Íslandi 1552–1630. Leiðsögukennari prófessor Þórhallur Vilmundarson.

 

Framhaldsnám við Kaupmannahafnarháskóla 1978–1979 í skólasögu og skjalfræði. Ég samdi drög veturinn 1978­–1979 að bókinni Skólalíf. Starf og siðir í latínuskólunum á Íslandi 1552–1846 sem IÐNÚ gaf út árið 2000.

Rannsóknarráð Íslands veitti undirrituðum styrk úr Vísindasjóði til að rannsaka starf og siði gömlu latínuskólanna á Íslandi. Skólalíf fjallar um starf og siði í íslensku latínuskólunum eftir siðaskipti: Skálholtsskóla (1553–1784), Hólaskóla (1552–1802), Hólavallarskóla (1786–1804) og Bessastaðaskóla (1805–1846).

 

Ég starfaði í tuttugu sumur við örnefnarannsóknir á höfuðborgarsvæðinu samhliða kennslu sem verktaki sveitarfélaganna, fyrst á vegum Kristjáns Eldjárns í Þjóðminjasafni og síðan, eftir að hann varð forseti, á Örnefnastofnun undir stjórn Þórhalls Vilmundarsonar. Ég samdi örnefnaskrár fyrir þau svæði sem sveitarfélögin voru að leggja undir byggð á árunum 1960 til 1990. Sem dæmi um þessa vinnu má nefna bókina Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar sem Garðabær gaf út 2001. Örnefni Reykjavíkurjarðanna birtust í fjögurra binda ritverki, Reykjavík, sögustaður við Sund, á árunum 1986–1989. Í lokabindi skráði ég örnefnin inn á loftmyndir, bls.158–199. Reykjavík: Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf.

Ég samdi örnefnaskrá fyrir Hafnarfjarðarland 2001–2004, Örnefnalýsing Hafnarfjarðarlands. Handrit GRG, 120 bls. A4. Ég nýtti mér fjölda heimilda. Þegar getið er heimildarmanna í nafnfræði Hafnarfjarðar verður Gísli Sigurðsson (1903–1985), lögreglumaður og minjavörður í Hafnarfirði, efstur á blaði. Ég vel af handahófi nokkur nöfn heimildarmanna, Gunnar Benediktsson tannlækni, Svan Pálsson landfræðing og Jónatan Garðarsson poppfræðing. Handrita- og myndasafn Gunnars yfir örnefni í landi Hafnarfjarðar er fjársjóður sem þarf að varðveita og gefa út. Jónatan fór á síðastliðnu ári í velheppnaða ferð með hóp skólasystkina og maka MR54 um Hafnarfjarðarland. Aðalhvatamaður var Hafnfirðingurinn Þorvaldur S. Þorvaldsson arkitekt. Ég hafði samið lýsingu Garðabæjar þegar ég talaði við bæjarstjórann Í Hafnarfirði en hann taldi útgáfu ofviða fjárhag bæjarins.

Ég samdi örnefnalýsingu fyrir stærsta hlutann af landi Mosfellssveitar. Sumurin 1975, 1976 og 1977 skráði ég örnefni Mosfellsbæjar en lauk ekki verkinu þar sem Jón Guðmundsson á Reykjum taldi eðlilegast að tengdasonur hans lyki því. Vinnukort mín gengu því til hans og verkinu var aldrei lokið. Nokkur örnefnakort mín og lýsingar jarða Mosfellssveitar eru samt varðveittar í skjalasafni Örnefnastofnunar í Árnastofnun. Ég naut stuðnings fjölmargra heimildarmanna við ritun örnefna Mosfellsbæjar. 

 

Árin 2010 til 2013 fékk ég styrk frá Lista- og menningarráði Kópavogsbæjar til að endurbæta og færa til nútímahorfs jarða- og örnefnalýsingu sem ég samdi 1967 að tilhlutan Hjálmars Ólafssonar bæjarstjóra. 

Endurskoðun á örnefnaskrá Kópavogs, sem birtist í fyrsta bindi Sögu Kópavogs 1990, er stór hluti verksins. 

Sigurður Björnsson, bæjarverkfræðingur Kópavogs, las yfir örnefnaskrá mína frá 1990 og færði fjölmargt til betri vegar. Sigurður útvegaði mér mörg nauðsynleg kort og er mér efst í huga uppdráttur Sæmundar Eyjólfssonar af Lækjarbotnalandi, dagsettur 3. september 1891.

Á sama hátt var Sigurður mér mikil hjálparhella er ég var að semja ritið Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar sem Garðabær gaf út árið 2001.

 

Nafnfræði Kópavogsbæjarlands, sem ég samdi á árunum 2010–2013 með styrk frá Lista- og menningarráði Kópavogsbæjar, var tibúin til útgáfu haustið 2014. Ég geri mér vonir um að rit mitt verði gefið út með öllum sínum viðbótum á næsta ári sem og þeim breytingum sem urðu á landi Kópavogsbæjar með dómi Hæstaréttar árið 2017 um afrétt jarða Seltjarnarneshrepps hins forna.

 

Þegar ég skilaði handriti mínu um jarðir og örnefni í Kópavogslandi til Hjálmars Ólafssonar árið 1970 fylgdu örnefnakort og 220 ljósmyndir á filmum sem skýrðu umhverfi og staðsetningu örnefnanna 1967. Handrit mitt fannst fyrir tilviljun í geymslukössum Kópavogsbæjar í Hamraborg en myndafilmur voru ekki sjáanlegar. Ég á samt enn í fórum mínum 20 myndir sem ég tók 1967.

Sýnishorn af myndum mínum frá árinu 1967.

 

Í fyrsta bindi Sögu Kópavogs, sem gefið var út árið 1990, var Örnefnaskrá mín prentuð í tveimur hlutum, bls. 240–280. Örnefnaskrá Kópavogs A, jarðirnar Digranes, Fífuhvammur, Kópavogur og Vatnsendi. Örnefnaskrá Kópavogs B, austursvæðin: Jarðirnar Lækjarbotnar (nýbýli 1868 úr afrétti), Gunnarshólmi, nýbýli sem var reist úr Norðurhólma Geitháls (áður Vilborgarkots) árið 1927, Geirland, upphaflega úr landi Helliskots (Elliðakots) og afréttur Vatnsendajarðar. 

Ég teiknaði fimm örnefnakort í lit með örnefnalýsingunni frá 1990. Jean-Pierre Biard kortateiknari bjó kortin til prentunar.

 

Árið 2017 úrskurðaði Hæstiréttur að gamli afréttur Seltjarnarneshrepps hins forna tilheyrði Kópavogsbæ. Stærsti hluti afréttarins var áður nefndur Kóngsland en nú er stærsti hluti gamla afréttarins þjóðlenda innan lands Kópavogsbæjar. Kópavogur var áður í þremur hlutum en samkvæmt hinum nýja dómi sameinast afréttarlönd Lækjarbotna og Elliðavatns innan marka Kópavogsbæjar (Sjá kort sem sýnir afrétt Seltjarnarness hins forna).

 

Annað fræðasvið mitt er skólasaga Íslands frá elleftu öld til 1846. Lokaritgerð mín fyrir cand. mag-próf í sögu Íslands árið 1965 fjallaði um tilurð latínuskóla á Íslandi í lúterskum sið.

Bókaútgáfan IÐNÚ gaf út árið 2000 bók mína Skólalíf, starf og siðir í latínuskólunum á Íslandi 1552–1846.

Undanfarin ár hef ég verið að víkka skólasöguna og færa til upphafsins á elleftu öld. Rit mitt ber vinnutitilinn Skólalíf á Íslandi fram til siðaskipta. Síðustu viðbætur voru settar inn 28. júní 2019. Á síðastliðnu ári fékk ég leyfi til að nýta mér skjalasafn kaþólsku kirkjunnar sem er til húsa í íbúð biskups á Landakotshæð.

Davíð Tencer, biskup í  Landakoti, bauð mér í morgunkaffi í biskupsíbúðinni á Hávallagötu og sýndi mér skjalasafn kaþólskra á Íslandi sem varðveitt er í einu herbergi íbúðarinnar. Hann sagði að ég mætti nýta safnið að vild sem sagnfræðingur. Ekkert secretum væri þar á ferðinni. Auk þess bauðst hann til að skrifa bréf fyrir mig til kaþólskra safna um aðgengi að gömlum skjölum um Íslandsmálefni á miðöldum. 

Gunnar F. Guðmundsson skjalavörður var mér einnig hjálplegur við öflun heimilda. 

Í síðara bindi skólasögunnar er fjallað um skólastarf á Íslandi í kaþólskri tíð. 

Alþingismenn voru svo vænir að veita mér fræðimannsíbúð í Jónshúsi í ágúst og september 2015 til að hnýta nokkra lausa enda í þessum skrifum. Ég naut fyrirgreiðslu fræðimanna í Kaupmannahöfn. Sérstaklega vil ég þakka Gottskálki Jenssyni og Ragnheiði Mósesdóttur.

Guðlaugur Rúnar Guðmundsson 

Sagnfræðingur

Austurvegi 41a

Selfossi.

Símar: 6994325 og 5545325

grg901@islandia.is

© 2020 Guðlaugur R. Guðmundsson. Proudly created with Wix.com

bottom of page